1. hluti kosningavita Pírata á höfuðborgarsvæðinu


Á næstu dögum ætla ég að setja hér inn mín svör við kosningavita prófkjörs Pírata á höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla að setja inn svör við fimm fullyrðingum á dag. Það mun því taka sex daga að birta þau öll. Hér er 1. hluti.

Fullyrðingarnar eru settar upp í Likert-kvarða formi. Þ.e. að fullyrðingunum á að svara með “mjög ósammála”, “ósammála”, “hlutlaus”, “sammála” eða “mjög sammála”.

 

Ég mun segja af mér þingmennsku ef vantrauststillaga á mig fær yfir 67% greiddra atkvæða í kosningakerfi Pírata

 

Sammála

Nánari skýring: Ef slík tillaga yrði samþykkt með auknum meirihluta þá myndi það benda til að ég hafi gert eitthvað hroðalega mikið af mér. Án trausts frá grasrótinni hefur þingmaður Pírata lítið að gera á þing.
Þó set ég þann fyrirvara að búið verði að hanna og samþykkja sanngjarnt ferli fyrir slíkar tillögur í lögum Pírata þar sem þingmaður hefði a.m.k. kost á að koma sínu sjónarmiði að áður en kosning um tillöguna færi fram.

 

Uppgjöri fjármálahrunsins 2008 er lokið

 

Mjög ósammála

Nánari skýring: Það segir sig sjálft að á meðan við erum enn með gjaldeyrishöft, t.d, þá er ekki hægt að halda því fram að þessu uppgjöri sé lokið. Þar að auki þá virðist ýmsum spurningum enn vera ósvarað um hvað nákvæmlega gerðist.

 

Bæta þarf húsnæðisvanda ungs fólks með stjórnvaldsaðgerðum

 

Sammála

Nánari skýring: Það þarf að lagfæra húsnæðisvandann, punktur. Ekki bara hjá ungu fólki heldur bara hjá fólki almennt. Allir eiga að hafa þak yfir höfuðið.
Ef eina leiðin til þess er með stjórnvaldsaðgerðum þá er það leiðin sem verður að fara. Bestu aðgerðirnar sem hægt er að fara í eru þó þær sem auka framboð af húsnæði svo eftirspurnin keyri ekki verð í botn.

 

Við eigum að lögleiða kannabis

 

Sammála

Nánari skýring: Lögleiðing og regluvæðing kannabis og margra annarra ólöglegra (í dag) vímuefna er rökréttur endapunktur. Það liggur þó mest á að afglæpavæða vörslu neysluskammta af ólöglegum vímuefnum. Fólk sem á annað borð lendir í vandræðum vegna vímuefnanotkunar á að meðhöndla í heilbrigðiskerfinu, ekki refsikerfinu.

 

Heilbrigðisþjónusta, menntakerfi og samgöngur eru grunnstoðir sem fjármagna ber með skattfé landsmanna

 

Sammála

Nánari skýring: Heilbrigðisþjónustu og menntakerfi á vafalaust að fjármagna að langmestu leyti með skattfé. Þessar tvær stoðir eru nauðsynlegar fyrir velsæld í landinu. Heilbrigðis- og velferðarkerfin er sá málaflokkur sem ég vil helst beita mér í.
Að hafa samgöngur með hérna er eina ástæðan fyrir að ég er ekki “mjög sammála”. Hvort samgöngur séu grunnstoð fer eftir aðstæðum. Við þurfum engu að síður öflugar niðurgreiddar almenningssamgöngur. Eina spurningin er að hversu miklu leyti á að niðurgreiða þær.

,

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *