Það var ærin ástæða fyrir að ég skrifaði fyrstu drög að þessu frumvarpi um afnám krónu á móti krónu skerðingar og bað þingflokk Pírata að fullvinna og leggja það fram. Halldóra Mogensen gerði það með glöðu geði fyrir hönd flokksins þar sem allir þingmenn hans voru meðflutningsfólk. Í fyrstu tilraun var málið svæft í nefnd og það þrátt fyrir að hafa verið eitt af fyrstu málunum sem var lagt fram á síðasta þingi.
Það var svo ærin ástæða fyrir að ég vann með Öryrkjabandalag Íslands að því að betrumbæta frumvarpið og greinargerð þess svo hægt væri að leggja það fram öðru sinni á þessu þingi. Nú með meðflutningsfólk úr öllum flokkum stjórnarandstöðu og eitt af þrem forgangsmálum Pírata.
Þetta mál má ekki sofna í nefnd aftur. Það verður að fara á dagskrá þings og klára þinglega meðferð. Vonandi með samþykkt en ef ekki þá verður allavega hægt að sjá hvaða þingflokkar og fulltrúar þeirra standa við orð sín. Það hafa allir flokkar á þingi sagt að þessa skerðingu þarf að afnema sem fyrst.
Ég hvet alla til að tala við þá þingmenn og -konur sem þið þekkið og hvetja þau til að styðja við þetta mál og koma því í gegn fyrir áramót. Þegar þau segja að kerfisbreyting sé nauðsynleg þá getið þið svarað, sannleikanum samkvæmt, að nei, það þarf enga kerfisbreytingu til.
Það er því vel hægt að afnema skerðinguna strax.
Það er meira að segja engin kerfisbreyting falin í þessu frumvarpi. Það eina sem það gerir er að hækka tekjutryggingu um samsvarandi upphæð og hámarksupphæð sérstakrar framfærsluuppbótar, sem er sá greiðsluflokkur sem er skertur um krónu á móti krónu. Það með er óskertar örorkugreiðslur frá TR komnar upp fyrir framfærsluviðmið öryrkja og þar með er krónu á móti krónu skerðingin tekin út sambandi.
(Þessi leið var valin, í samráði við ÖBÍ, til að verja þá öryrkja frá tekjumissi sem lifa við skertar greiðslur vegna búsetu. Að finna lausn á vanda þess hóps er í öðru ferli. Ferli sem líklega endar í nýju frumvarpi).