Í gærmorgun (14. nóv.) voru Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Anna Kolbrún Árnadóttir gestir í þættinum Í bítið á Bylgjunni. Þar var aðallega til umræðu biðlistar í heilbrigðiskerfinu.
Í lok viðtalsins, nánar tiltekið á um mínútu 16:30 í þessari upptöku, berst talið að tillögu meirihluta fjárlaganefndar um lækkun á áður boðuðu hækkuðu framlagi til málefna öryrkja. Hækkun sem var ætlað að nota í þá kerfisbreytingu sem hefur verið til umræðu á undanförnum árum. Innleiðingu starfsgetumats þ.e.a.s.
Að venju þegar þetta málefni er rætt er minnst á afnám krónu á móti krónu skerðingar. Í blálokin er spurt hvort sú skerðing verði afnumin og svarar Bjarkey því að það kosti líklega 18-20 mia. kr. og því komi það ekki til greina í fjárlögum næsta árs.
Þessi tala er alröng og þykir mér alvarlegt að fulltrúi í fjárlaganefnd láti frá sér slíka vitleysu. Sérstaklega þar sem tóninn í svari hennar gefur til kynna að hún sé handviss um þessa tölu og viti um hvað hún er að tala.
Leiðrétt tala
Í dag er upphæð sérstakrar uppbótar til framfærslu mest 61.772 kr. á mánuði. Það er sá greiðsluflokkur sem skerðist um krónu á móti krónu. Einfaldasta leiðin til að afnema þessa skerðingu er að fella þessa upphæð inn í tekjutryggingu og þar með hækka óskertar greiðslur TR til öryrkja upp fyrir það tekjumark að þeir eigi rétt á þessari uppbót.
Skv. mælaborði TR voru 21.058 einstaklingar örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþegar í janúar á þessu ári (https://qlik.capacent.is/extensions/TRMB06/TRMB06.html). Jafnvel þó allir þessir einstaklingar myndu fá hækkunina að fullu og þar með hámarka kostnað ríkissjóðs við afnámið þá væri hann lægri en tölurnar hennar Bjarkeyjar, eða 15,6 mia. kr.
Á Alþingi liggur fyrir frumvarp um afnám þessarar skerðingar (https://www.althingi.is/altext/149/s/0054.html). Frumvarp sem ég samdi fyrstu drög að í fyrra og bað þingflokk Pírata að leggja fram. Í greinargerð þess frumvarps kemur fram að kostnaðurinn við þá aðgerð sé um 11,4 mia. kr. eða rúmur helmingur þess sem Bjarkey heldur fram. Sú tala og aðferðin við að afnema skerðinguna er dregin af fyrirspurn til félagsmálaráðherra og svari hans þess efnis frá Halldóru Mogensen(https://www.althingi.is/altext/146/s/1121.html). Svar félagsmálaráðherra er byggt á rauntölum um þá lífeyrisþega sem fá þessa uppbót. Í svipaðri fyrirspurn sem Björn Leví lagði fram að mínu frumkvæði er betri sundurliðun á þessum kostnaði (https://www.althingi.is/altext/146/s/0361.html)
Í þeim tölum er ekki gert ráð fyrir tekjuskatti sem ríkissjóður myndi fá til baka ef þessi breyting gengi í gegn. Miðað við óbreyttar tekjur þeirra lífeyrisþega sem þessi skerðing á við myndi ríkissjóður fá um 2,5 mia. kr. í tekjuskatt til baka. Kostnaðurinn er þá þegar kominn niður í um 9 mia. kr.
Það er hins vegar ómögulegt að sjá fyrir hvaða áhrif þessi breyting myndi hafa á annars vegar atvinnuþátttöku þessa hóps og hins vegar neysluvenjur þeirra.
Kostnaðurinn enn minni
Ég fullyrði að meirihluti þeirra auknu tekna til framfærslu sem þessi hópur fengi við þessa breytingu færi beint í neyslu og því fengi ríkissjóður enn meira til baka í formi virðisaukaskatts.
Einnig fullyrði ég að stór hluti þeirra sem er í dag ekki á vinnumarkaði myndi í kjölfar afnáms þessarar skerðingar sjá sér meiri hag í aukinni atvinnuþátttöku og þar með myndu fleiri lífeyrisþegar borga meiri tekjuskatt til ríkisins. Þær auknu tekjur færu svo líklega líka að mestu beint í neyslu og þar með aukinn vsk.
Ekki má gleyma að allar tekjur skerða þess uppbót, þ.m.t. tekjur úr lífeyrissjóði. Það þýðir að jafnvel öryrkjar sem ekki geta unnið neitt en fá einhverjar tekjur aðrar en örorkugreiðslur TR hagnast á afnámi krónu á móti krónu skerðingar.
Í stuttu máli fullyrði ég að keðjuverkandi áhrif þess að afnema krónu á móti krónu skerðinguna yrði þess valdandi að kostnaður ríkissjóðs við afnámið yrði í raun afar lítill og jafnvel enginn þegar uppi er staðið. Hverju sem því líður myndi afnámið auka lífsgæði öryrkja til muna.
Ég er meira en tilbúinn að veita hverjum sem er viðtal um þessi mál, hérumbil hvenær sem er.