Flestir sem þekkja mig eða hafa fylgst með pólitískum störfum mínum vita að ég er öryrki. Margir vita samt ekki af hverju ég er öryrki.
Ósýnileg örorka
Mitt örorkumat er vegna þunglyndis- og kvíðaröskunar. Ég hef alveg verið opinskár með það og skammast mín ekki fyrir það en það er samt ekki endilega það fyrsta sem ég segi fólki. Ef ekki fyrir neitt annað en að mín örorka eða orsök hennar skilgreinir mig ekki sem persónu. Það er engu að síður ein mín mesta geðrækt að tala opinskátt um mínar geðrænu áskoranir og reyndar mitt stærsta innlegg í að berjast gegn fordómum gagnvart geðsjúkdómum.
Sýnileg örorka
Það sem mögulega enn færri vita er að ég á líka við heilmikinn stoðkerfisvanda að stríða. Ég ligg t.d. fyrir núna, að mestu farlama, vegna brjóskloss sem veldur því að hægri fótleggurinn (í þetta skiptið en stundum er það vinstri fótleggurinn þó það sé sjaldnar) er lamaður að mestu. Brjósklosið, blessunarlega, kemur og fer. Það er ekki eini stoðkerfisvandinn hjá mér en líklega sá sem veldur mér mestum eða öllu heldur alvarlegasta vandanum (önnur slík vandamál eru sem sagt algengari en vægari).
Ef til þess kæmi að ég losnaði á einhverjum tíma við mína geðröskun (og trúið mér; fátt óska ég sjálfum mér meira en þessa) þá myndi ég nær örugglega engu að síður fá örorkumat á grundvelli stoðkerfisvanda.
Ekki dæma fólk þó þið sjáið ekki orsök örorku þeirra

Tilefni þessa pósts er meðfylgjandi mynd sem ég rakst á áðan. Stundum þegar skrokkurinn er að stríða mér geng ég við staf. Eðli málsins samkvæmt hafa margir orðið vitni af því þegar svo liggur við. Það er erfitt að lýsa því í orðum en munurinn á viðbrögðum og -tökum fólks gagnvart mér eftir því hvort ég geng við staf eður ei er sláandi. Sérstaklega ef og þegar örorka mín berst í tal.
Nákvæmlega þessi munur er ein af mörgum ástæðum þess að ég berst gegn upptöku starfsgetumats af öllum mínum krafti. Reynsla annarra þjóða hefur einmitt sýnt að aðferðarfræðin sem starfsgetumat grundvallar á bitnar mest og helst á þeim sem eiga við ósýnilega örorku að stríða. Það er þó efni í annan og lengri pistil.
Ég bið ykkur því vinsamlegast að fara varlega í að dæma fólk út frá örorku þeirra þó þið sjáið ekki orsök hennar með berum augum.