Hugleitt um smölun


Ég var að lesa yfir gamla þræði hér á Pírataspjallinu er varða prófkjör Pírata í fyrra sumar. Ástæðan verandi m.a. að ég hef verið að skoða leiðir til að endurbæta kosningakaflann í lögum Pírata. Eins og gefur að skilja (allavega fyrir þá sem fylgdust með í fyrra) eru þar á meðal umræður um smölun. Ég hef mikið hugleitt um smölun frá því vel fyrir prófkjörin.

Skilgreiningar

Áður en lengra er haldið er líklega best að ég lýsi hvernig ég skilgreini smölun í mínum huga. Ég geri það til að allir sem þetta lesa séu með sömu hugmynd í huga og ég (sem vonandi leiðir til minni skilgreiningarumræðu og meiri efnislega umræðu).

Í þessu samhengi skilgreini ég smölun (getum kallað þessa skilgreiningu “smölun 1” til að forðast misskilning seinna í pistlinum/þræðinum) sem sagt sem athæfið að hvetja fólk á skipulagðan og jafnvel aðgangsharðan hátt til að skrá sig í flokk eingöngu og gagngert til að kjósa einn tiltekinn frambjóðanda í lista- eða persónukosningu. Þetta gæti líka átt við að hvetja fólk til að skrá sig í flokkinn eingöngu og gagngert til að kjósa á ákveðinn hátt í kosningakerfi flokksins í tilteknu máli. Með öðrum orðum að hvetja fólk sem hefur engan áhuga eða vilja til að taka þátt í öðru starfi flokksins til að skrá sig bara til að hafa áhrif á eitt tiltekið mál og svo ekkert meira.

Ég lít sem sagt ekki á það sem smölun, í þessu samhengi (köllum þetta “smölun 2”), að hvetja fólk sem styður hugsjónir, hugmyndafræði eða stefnumál umrædds flokks til að skrá sig í flokkinn svo það geti tekið fullan þátt í starfi flokksins. Hvort sem þar um ræðir lista- eða persónukosningar eða mál í kosningakerfi flokksins. Það er heldur ekki smölun, í þessu samhengi (köllum þetta “smölun 3), að hvetja fólk sem er nú þegar skráð í flokkinn til að kjósa ákveðið fólk eða einstakling í lista- eða persónukosningu eða að kjósa á ákveðinn hátt í kosningakerfi flokksins. Hvorutveggja er vissulega smölun í strangri skilgreiningu en það er að mínu mati eðlismunur á “smölun 1” annars vegar og “smölun 2 og 3” hins vegar.

Hér skiptir litlu eða engu máli um hvaða flokk ræðir þó augljóslega sé ég að vísa til smölunar hjá og fyrir Pírata.

Hugleiðingin

Þeir sem hafa talað við mig um þessi mál og/eða séð fyrri skrif mín (sérstaklega síðasta haust) vita að ég er mjög mótfallinn smölun 1. Það er mín skoðun að það brenglar lýðræðið. Það brenglar lýðræði að því leytinu til að það skekkir niðurstöðu kosninganna. Það er varla hægt að tala um að niðurstaðan í máli þar sem þetta hefur verið gert sé í samræmi við vilja, hvað þá meirihlutavilja, tiltekins hóps ef mikið af fólki sem hefur engin önnur tengsl við hópinn en við þann sem hvetur til skráningar gengur í hópinn eingöngu til að hafa áhrif á þetta eina mál. Þar við bætist aðstöðumunurinn milli fólks. Einstaklingur sem er vel þekktur fyrir á mun auðveldara með smölun 1 heldur en einhver sem er ekki vel þekktur. Sama á við um einstakling sem er betur í efnum heldur en aðrir.

Fátt eða ekkert fólk sem skráir sig í flokk eingöngu í þessum tilgangi fer að taka þátt í öðru starfi flokksins í kjölfari. Því skliar þetta athæfi litlu eða engu til viðbótar við starf flokksins. Hvers virði er það þá fyrir flokkinn að þetta fólk hafi skráð sig eða sé skráð í flokkinn?

Hér verð ég hins vegar hugsi. Við vitum að það er erfitt eða ómögulegt að sanna smölun 1 ef sá sem smalar vill að það fari leynt. Við vitum líka að einhverjir munu smala sama hvað er sagt eða gert gegn því. Jafnvel þó það væri sett í lög flokksins eða reglur. Ef það væri bannað hver ættu viðurlögin að vera?

Ég var framan af þeirrar skoðunar að það ætti að banna smölun 1. Eftir því sem ég hugsa meira um þetta þá kemst ég alltaf meira og meira á þá skoðun að okkur er ekki stætt á að gera það. Þó það væri ekki fyrir annað en að bann býr til ákveðinn aðstöðumun líka. Þ.e. mun milli þeirra sem myndu fylgja banninu og þeirra sem myndu ekki fylgja því. Sá aðstöðumunur gæti auðveldlega haft meiri áhrif á niðustöðu kosninganna sem um ræðir heldur hversu mikil getan til að smala hefði á niðurstöðuna.
Við sem erum mótfallin smölun 1 getum haldið áfram að tala gegn þess konar smölun. Það setur okkur svo í þá stöðu að þurfa að velja á milli þess að gerast hræsnarar fyrir að tala gegn henni en smala samt eða gefa þeim sem smala forskot með því að gera það ekki sjálf.

Niðurstaðan

Mér er og verður áfram meinilla við smölun 1. Mér þykir mjög miður að segja það en ég get ekki lengur fullyrt að ég muni aldrei smala með þeim hætti. Hvort sem er fyrir mig eða aðra. Hvort og hvernig ég geri það, ef einhvern tímann, mun líkast til ráðast af því hvernig ég met hugarfarið innan flokksins þegar að því kemur að ég þurfi að hugsa um það af alvöru.

“You live and you learn.”

, ,

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *