Sumir hafa gagnrýnt nýsamþykkta stefnu Pírata um niðurgreiddar tannlækningar. M.a. með þeim rökum að þeir sem mest þurfi aðstoð vegna þessa mjög svo dýru þjónustu fái hana nú þegar niðurgreidda. Þ.e.a.s. lífeyrisþegar.
Nema hvað að með þeim rökum er alveg horft fram hjá fólki sem er fátækt en ekki lífeyrisþegar, t.d. lágtekjufólk. Þá er líka horft fram hjá þeirri staðreynd sem kemur fram í fréttinni að gjaldskrá SÍ hefur ekki haldið í við hækkun verðlags.
Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur um endurgreiddan kostnað vegna tannlækninga örorkulífeyrisþega á 144. löggjafarþingi (2014-2015) kemur fram að gjaldskráin hafi hækkað um 5,9% frá 2003 en hefði þurft að hækka um 90,4% til að halda í við vísitölu verðlags síðan 1. janúar 2003.
Af hverju er niðurgreiddar tannlækningar mikilvægar?
Tannlækningar eru dýrar. Þetta vita allir sem hafa farið til tannlæknis á Íslandi. Það er heldur ekkert óeðlilegt að svo sé þegar tekið er tillit til þess að tannlæknar eru sérfræðingar á sínu sviði og hafa kostað til margra ára námi til að verða það. Alveg eins og aðrir læknar. Það er ekki það sem er gagnrýnivert heldur að einhvers staðar í þróun sjúkratrygginga var ákveðið að tannlækningar ættu að vera val hvers og eins og því ekki niðurgreiddar með sama hætti og þjónusta annarra lækna. Eins og tennur séu ekki hluti af líkamanum eða að slæm tannheilsa sé bara útlitslegs eðlis.
Tannpína er staðreynd sem margir lifa við dags daglega. Ef verkurinn væri annars staðar gæti ég fengið aðstoð læknis sem ríkið myndi niðurgreiða en af því verkurinn er í tönn þá er það bara mitt vandamál. Niðurgreiddar tannlækningar eru mikilvægar af því að tennur eru hluti líkamans og gæta á jafnræðis milli verkja.
En forvarnir bjarga málunum, er það ekki?
Ef ég fæ sýkingu vegna inngrónar tánaglar þá fer ég til heimilislæknis. Hann getur komist að þeirri niðurstöðu að eina sem hægt er að gera sé aðgerð. Sjúkratryggingar borga mestan part kostnaðar við slíka aðgerð. Jafnvel þó ég hefði mögulega getað komist hjá þessum afleiðingum ef ég hefði bara fylgt leiðbeiningum sem ég fékk í fyrri heimsókn til heimilislæknisins út af sama vandamáli um hvernig ég ætti að hirða um og klippa þessa tánögl.
Þegar tannskemmd nær ákveðnu stigi þá fylgir henni oft sýking. Þá þarf að bregðast við með því að fara til tannlæknis en þrátt fyrir að lausnin sé sú sama (í megindráttum) og í tilfelli inngrónu tánaglarinnar hér fyrir ofan þá er sú aðgerð ekki niðurgreidd. Af hverju ekki?
Þar fyrir utan þá eru margir í þeirri stöðu að hvorki hreinsun tanna né aðrar forvarnir eru að fara skila sér vegna undirliggjandi sjúkdóma eða aukaverkana af lyfjum.
Þess má geta að Viðreisn er líka með sambærilega stefnu og Píratar í þessu máli. Þ.e. að tannlækningar eigi að vera hluti af tryggingakerfinu.
Þá hefur Samfylkingin haft það á stefnuskrá sinni að tannlækningar barna skuli vera gjaldfrjálsar. Það markmið hefur náðst að mestu en síðustu árgangarnir til að fá gjaldfrjálsar tannlækningar munu detta inn í kerfið 1. janúar 2018.