Forsendurnar
Almennt þá er ég mjög mótfallinn því að einstaklingar séu að kaupa sér persónulegar auglýsingar til að koma sjálfum sér á framfæri í pólitísku starfi. Í mínum huga þá felst ákveðin brenglun á lýðræði í því að geta keypt sér fylgi bara með því að eyða smá pening. Eða miklum pening ef út í það er farið. Brenglunin felur í sér að þeir sem geta eytt pening eru líklegri til að ná frama í stjórnmálum. Sem svo skýrir, allavega að hluta, af hverju það eru hlutfallslega meira af vel stæðu fólki í stjórnmálum heldur eðlilegur þverskurður þjóðfélagsins myndi skila.
Fyrir utan mína persónulegu skoðun á svona persónulegum auglýsingum (pun intended) þá er það mín reynsla að margir Píratar séu mér samsinna. Þ.e. að mörgum Pírötum þykir þetta “ópíratískt”. Þetta grefur undan hugmyndinni um að allir, sem hafa áhuga á pólitík, geti nálgast stjórnmál á jafningjagrundvelli.
Tilraunin
Ég ákvað engu að síður að gera ákveðna tilraun. Ég er í þessum töluðu (skrifuðu) orðum að endurvekja “Like” síðuna mína á Facebook. Ég hef ekkert notað hana síðan í prófkjörum Pírata á höfuðborgarsvæðinu í fyrra og svo lítillega í kringum kosningarnar sjálfar. Tilraun þessi felst í að deila þessari grein inn á “Like” síðuna og boosta svo þann póst á Facebook með lágri upphæð. Tilgangurinn er í raun aðeins að sjá hversu mikla dreifingu stöðuuppfærslan fær án þess að ég deili henni neins staðar annars staðar og þar með að sjá hvað ein svona “boostuð” auglýsing skilar miklu til baka.
Gagnsæið
Ég ætla að láta auglýsinguna keyra í 7 daga með budget upp á 7.000 kr. eða 1.000 kr. á dag í viku. Að þessari viku liðinni þá ætla ég að uppfæra greinina og stöðuuppfærsluna á Facebook með upplýsingum um dreifinguna og viðbrögðunum við auglýsingunni. Þá bæði fyrir Facebook og vefsíðuna.
Niðurlagið
Ég mun mögulega endurtaka þetta einu sinni í haust með það í huga að bera saman áhrifin af því að auglýsa “Like” síðu í dvala og svo sömu síðu þegar hún er virk. Ég býst ekki við að ég muni gera þetta oftar en það nema afstaða mín gagnvart svona persónulegum auglýsingum breytist mikið. Ég tel engar líkur á að svo verði. Eins og áður segir eru margir þeirrar skoðunar að svona auglýsingar séu “ópíratískar” en á sama tíma eru tilraunir alveg í anda píratisma.
Nú verður áhugavert að sjá hvort ég verði hengdur í flokksstarfinu. 😉
Lokalokaorð
Allavega, ef þú hefur áhuga á að sjá meira frá mér skelltu endilega “like” á Facebooksíðuna og fylgstu með þessari síðu (bergthor.is). Takk.