Rof milli raunveruleika og skynjunar hjá stjórnmálafólki


Margt stjórnmálafólk, sérstaklega þau sem eru í meirihluta, heldur að allir Íslendingar hafi það bara rosalega gott eða allavega alveg skítsæmilegt. Að einhverju leyti skýrist þetta kannski á rofi milli raunveruleika og skynjunar hjá stjórnmálafólki. Fólki sem vissulega hefur það gott.

Það þarf náttúrulega einhverja geðveiki til þess að sjá ekki hvað öryrkjar, aldraðir, láglaunafólk og annað fólk í fátækt hafa það skítt í þessu frábæra landi sem við búum á.


Slæmir mælikvarðar

Getum við vinsamlegast hætt að nota meðaltöl, miðgildi, og önnur tölfræðitrix sem mælikvarða á velgengni hagkerfisins? Hvað þá hversu mikinn arð stóreignafólk greiðir sér út úr sínum fyrirtækjum eða hversu miklar eignir það á. Allavega ef við erum að tala um hversu gott almenningur í landinu hefur það.

Svar við fyrirspurn Guðmundar Inga, þingmanns Flokks Fólksins, um kostnað ríkisins við að hækka skattleysismörk í 300 þús. kr. á mánuði leiddi áhugaverðar tölur og staðreyndir í ljós. Ein af þeim er að ef skattleysismörk yrðu hækkuð í 300 þús. myndu 119 þús. manns ekki borga neinn skatt né útsvar.

Það segir okkur að 119 þús. manns eru með atvinnutekjur við eða undir 300 þús. kr. á mánuði. Að ríflega þriðjungur landsmanna eru með tekjur við eða undir lágmarkslaunum. Lágmarkslaunum sem komast hvergi nálægt því að duga til framfærslu í landinu.

Er einhver virkilega hissa á að fólkið í landinu sé þreytt, reitt, og leitt á framkomu og viðmóti ráðafólks í sinn garð?

(Tek fram að orðalagið í fyrstu tveim málsgreinum þessa pistils er skopstæling á frægum ummælum síðustu tveggja forsætisráðherra. Sjálfur hef ég reynt að temja mér að nota ekki orðið “geðveiki”, samheiti þess orðs, eða orðasambönd sem vísa til geðsjúkdóma, sbr. “rofi milli raunveruleika og skynjunar”, með þeim frjálslega og niðrandi hætti sem þeir gera. Slíkt orðaval viðheldur og ýtir undir fordóma gagnvart geðröskunum og fólki sem á við þær að stríða.)

, ,