Stefnumót Pírata


Það var ætlun mín að birta daglega mín svör við kosningavita Pírata (stefnumot.piratar.is) áður en kosning myndi hefjast. Ég birti fyrsta hluta af þessu stuttu fyrir upphaf kosninga. En svo gerðist lífið og ekki vannst tími til þess að klára þetta.

Nú hef ég loksins klárað að bæta við nánari skýringum við spurningarnar og mín svör og birti ég hér því svörin og skýringar í heild sinni.

Fullyrðingarnar eru settar upp í Likert-kvarða formi. Þ.e. að fullyrðingunum á að svara með “mjög ósammála”, “ósammála”, “hlutlaus”, “sammála” eða “mjög sammála”.

 

Ég mun segja af mér þingmennsku ef vantrauststillaga á mig fær yfir 67% greiddra atkvæða í kosningakerfi Pírata

Sammála

Nánari skýring: Ef slík tillaga yrði samþykkt með auknum meirihluta þá myndi það benda til að ég hafi gert eitthvað hroðalega mikið af mér. Án trausts frá grasrótinni hefur þingmaður Pírata lítið að gera á þing.
Þó set ég þann fyrirvara að búið verði að hanna og samþykkja sanngjarnt ferli fyrir slíkar tillögur í lögum Pírata þar sem þingmaður hefði a.m.k. kost á að koma sínu sjónarmiði að áður en kosning um tillöguna færi fram.

 

Uppgjöri fjármálahrunsins 2008 er lokið

Mjög ósammála

Nánari skýring: Það segir sig sjálft að á meðan við erum enn með gjaldeyrishöft, t.d, þá er ekki hægt að halda því fram að þessu uppgjöri sé lokið. Þar að auki þá virðist ýmsum spurningum enn vera ósvarað um hvað nákvæmlega gerðist.

 

Bæta þarf húsnæðisvanda ungs fólks með stjórnvaldsaðgerðum

Sammála

Nánari skýring: Það þarf að lagfæra húsnæðisvandann, punktur. Ekki bara hjá ungu fólki heldur bara hjá fólki almennt. Allir eiga að hafa þak yfir höfuðið.
Ef eina leiðin til þess er með stjórnvaldsaðgerðum þá er það leiðin sem verður að fara. Bestu aðgerðirnar sem hægt er að fara í eru þó þær sem auka framboð af húsnæði svo eftirspurnin keyri ekki verð í botn.

 

Við eigum að lögleiða kannabis

Sammála

Nánari skýring: Lögleiðing og regluvæðing kannabis og margra annarra ólöglegra (í dag) vímuefna er rökréttur endapunktur. Það liggur þó mest á að afglæpavæða vörslu neysluskammta af ólöglegum vímuefnum. Fólk sem á annað borð lendir í vandræðum vegna vímuefnanotkunar á að meðhöndla í heilbrigðiskerfinu, ekki refsikerfinu.

 

Heilbrigðisþjónusta, menntakerfi og samgöngur eru grunnstoðir sem fjármagna ber með skattfé landsmanna

Sammála

Nánari skýring: Heilbrigðisþjónustu og menntakerfi á vafalaust að fjármagna að langmestu leyti með skattfé. Þessar tvær stoðir eru nauðsynlegar fyrir velsæld í landinu. Heilbrigðis- og velferðarkerfin er sá málaflokkur sem ég vil helst beita mér í.
Að hafa samgöngur með hérna er eina ástæðan fyrir að ég er ekki “mjög sammála”. Hvort samgöngur séu grunnstoð fer eftir aðstæðum. Við þurfum engu að síður öflugar niðurgreiddar almenningssamgöngur. Eina spurningin er að hversu miklu leyti á að niðurgreiða þær.

 

Leggja á forsetaembættið niður og fela forseta Alþingis og forsætisráðherra verk forseta

Mjög ósammála

Nánari skýring: Í núverandi lagaumhverfi verð ég að vera mjög ósammála þessu. Mikilvægasta hlutverk forseta í dag er að vera varnagli á lélega lagasetningu.
Þegar og ef það tekst að koma í stjórnarskrá óheftum rétti þjóðarinnar til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um öll lög og þingsályktanir þá fyrst má leggja forsetaembættið niður.
Ný stjórnarskrá skv. tillögum SLR dugar ekki einu sinni því þar er þessi réttur ekki óheftur.

 

Við þurfum að setja skatt á alla gesti sem koma til Íslands og fjárfesta með þeim skatti í innviðum og aðstöðu

Sammála

Nánari skýring: Að setja lágan skatt á hvern einstakling sem til landsins kemur ætti að vera sjálfsagt mál. Hann þarf að vera það lágur að hann sé ekki tilfinnanlegur en nógu hár til að hann skili árangri.

 

Ég styð núverandi fyrirkomulag í útdeilingu sjávarauðlinda Íslands

Mjög ósammála

Nánari skýring: Sjávarauðlindir, jafnt og aðrar auðlindir, eiga að vera eign þjóðarinnar. Fyrirtæki og einstaklingar eiga ekki að geta fengið þá eign til afnota, kaupa, sölu og útleigu án þess að greiða fyrir það. Þá er uppboð á aflaheimildum mun eðlilegra.

 

Ég krefst þess að næsta Alþingi samþykki stjórnarskrá Stjórnlagaráðs svo gott sem óbreytta, þing verði rofið sem fyrst og kosið aftur

Sammála

Nánari skýring: Eins mikið og ég styð að samþykkt verði ný stjórnarskrá á grundvelli tillagna SLR þá get ég ekki sagst vera meira en “sammála” gagnvart þessari staðhæfingu. Orðalagið er of gildishlaðið og niðurnjörvað.
Ég er _mjög_sammála_ því að samþykkja skuli nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna SLR. Enda er það samþykkt stefna Pírata.

 

Við sem þjóð eigum að taka vel á móti eins mörgum flóttamönnum og innflytjendum og hægt er, jafnvel þó það auki álag á kerfið til skamms tíma

Mjög sammála

Nánari skýring: Lykilatriði í þessari fullyrðingu er “eins og hægt er”. Við eigum sérstaklega að taka á móti eins mikið af flóttafólki og hægt er innan þeirra marka sem innviðir okkar setja.
Sama á reyndar við um innflytjendur en þeir setja álag á aðra innviði heldur en flóttamenn.

Í öllu falli er nauðsynlegt að straumlínulaga kerfið hjá okkur. Það er _ekki_ í lagi að fólk þurfi jafnvel að bíða í ár eftir að fá niðurstöðu um hvort það fái að vera áfram á landinu eða ekki.

 

Núverandi fyrirkomulag á Kjararáði og ákvörðunum þess á tekjum æðstu embættismanna virkar fínt

Mjög ósammála

Nánari skýring: Kjararáð er einfaldlega ekki að virka. Það eru of margir embættismenn sem heyra undir það eins og er og skipun ráðsmanna er frekar langt frá því að vera hlutlaus.
Ef svona ráð á að geta virkað þá þarf að minnka umfang þess og tryggja að það séu engin bein tengsl milli ráðsmanna og þeirra sem ráðið á að ákveða kjör fyrir. Þar sem íslenska þjóðin er sáralítil þá er líklega eina leiðin til þess að í ráðinu sitji bara erlendir aðilar.

 

Við eigum að rannsaka mögulegar leiðir til að leggja niður almenna bótakerfið og innleiða í stað þess skilyrðislausa grunnframfærslu (borgaralaun)

Sammála

Nánari skýring: Þetta ætti að vera langtímamarkmið. Það þarf hins vegar meiri rannsóknir og vinnu til að finna út hvernig eigi að gera þetta. Það þarf m.a. að finna útfærslu sem er raunhæf. Þ.m.t. að kerfið verði ekki vinnuletjandi.
Einnig ætti að stefna að því að afnema hugtakið “bótakerfi” eins mikið og hægt er þar sem þetta hugtak jaðarsetur þá einstaklinga sem þiggja “bætur”. Fólk á rétt á að lifa mannsæmandi lífi og það að þiggja greiðslur frá ríkinu til að ná því markmiði á ekki að vera neikvætt.

 

Ég vil fullan aðskilnað ríkis og kirkju með fullu jafnrétti til allra lífskoðunarfélaga

Mjög sammála

Nánari skýring: Á meðan kveðið er á um það í stjórnarskrá að hér skuli vera þjóðkirkja sem er sérstaklega stutt og varin af ríkinu þá er hvorki fullt trúfrelsi né jafnrétti milli lífskoðunarfélaga á Íslandi. Því vil ég fullan aðskilnað eins fljótt og mögulegt er.

 

Við eigum að kjósa forystu fyrir Pírata með svipuðum hætti og gert er hjá hefðbundnum stjórnmálaflokkum

Mjög ósammála

Nánari skýring: Það þarf að skilgreina betur verksvið og ábyrgðir fyrir fólk í trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Þar með ætti að vera að leysa vandamálin sem hafa komið upp vegna skorts á kjörinni forystu.
Um leið og farið verður að kjósa forystu hjá flokknum þá erum við farin að fikra okkur í átt að píramída skipulagi á völdum innan flokksins. Þá verður hætt við að vald grasrótarinnar fari að lúta lægra haldi.

 

Við eigum að virkja meira og selja orkuna í gegnum sæstreng

Mjög ósammála

Nánari skýring: Þetta ætti ekki að þurfa nánari skýringu. En til öryggis þá er það staðreynd að meirihluti þess rafmagns sem er framleiddur hér fer til stóriðju. Iðnaðs sem oft skilar engu nema til baka nema störfum. Störf sem hægt væri að búa til með öðrum hætti.
Virkjanir hafa gert óbætanlegan skaða á náttúru Íslands og nóg er komið.
Við þetta má bæta að með lagningu sæstrengs myndi raforkuverð á Íslandi hækka þar sem við værum þá tengd við grunnnet Evrópu.

 

Ég styð sjávarútvegsstefnu Pírata

Mjög sammála

Nánari skýring: Ég er almennt ekki í meiriháttar andstöðu við stefnumál flokksins. Þ.e. að ég styð þau flest. Þetta er þó stefna sem ég er mjög sammála og styð með öllum krafti. Í þessari stefnu felst stóraukin tekjuöflun ríkissjóðs sem er þá hægt að nota til að fjármagna nauðsynlega innviði landsins. Innviði sem hafa verið sveltir frá hruni og fyrir það. Nóg er komið. Endurreisum landið.

 

Landbúnaður á að bera sig án ríkisstuðnings

Sammála

Nánari skýring: Í hinum fullkomna heim myndi íslenskur landbúnaður vera alveg sjálfbær. Hann er það því miður ekki. Það ætti samt að vera hægt að ýta undir sjálfbærni hans með öðrum hætti en beinum styrkjum til hans eða verndartollum á innfluttum matvælum. Borgaralaun gætu t.d. aðstoðað við þetta.
Þangað til hægt er að finna leið til að gera hann sjálfbæran þá þarf ríkið að styðja við hann því við verðum að tryggja, eftir fremsta megni, að innlend matarframleiðsla dugi okkur til framfærslu

 

Stjórnvöld eiga að leggja sérstaka áherslu á aðgerðir gegn fátækt á Íslandi

Mjög sammála

Nánari skýring: Sem ein ríkasta þjóð heims af auðlindum þá eigum við að hreint út skammast okkur fyrir þá miklu fátækt sem hér er. 6.100 börn líða fyrir fátækt á Íslandi. Hundruðir og stundum þúsundir fjölskyldna þurfa að leita til frjálsra félagasamtaka til að hafa mat út mánuðinn. Lífeyrisþegar og annað lágtekjufólk veigrar sér við að fara til læknis vegna kostnaðar.
Það á enginn að þurfa að upplifa að þurfa að velja milli þess að kaupa nauðsynleg lyf eða mat fyrir heimilið.

 

Ég vil einkavæða sem flest af því sem í dag er á könnu ríkisins, t.d. Landsvirkjun og Landsbankann

Ósammála

Nánari skýring: Fyrir utan að Landsvirkjun og Landsbankinn eru slæm dæmi til að taka saman þá er ágætt að hafa suma hluti í eigu ríkisins.

 

Allir eiga rétt á jöfnu aðgengi að menntun óháð aldri, búsetu og fjárhagsstöðu

Mjög sammála

Nánari skýring: Hærra menntunarstig er lykill að framþróun þjóðarinnar. Því fleiri sem geta menntað sig við hæfi því betra fyrir alla, líka þá sem ekki mennta sig. Að mennta sig á því að vera valmöguleiki fyrir alla en ekki lúxus. Og það á við á öllum menntastigum.
Fjárhagsstuðningur á því að vera í boði fyrir alla sem ekki eru á framfæri annarra óháð menntastigi. Það á líka að reyna eftir fremsta megni að bjóða upp á nám í heimabyggð. Allavega fjarnám ef staðarnám er ekki mögulegt.

 

Tekjuskattur á almennar launatekjur er of hár í dag

Hlutlaus

Nánari skýring: Tekjuskattur ætti að ráðast annars vegar af því hversu miklar tekjur ríkissjóði vantar upp á til að standa straum af útgjöldum sínum. Þ.e. að dekka það sem aðrir tekjustofnar ná ekki að dekka.
Og hins vegar er ég mjög fylgjandi því að notast við kenningu um skattheimtu sem kallast “the Laffer curve”. Í stuttu máli þá á skatturinn að vera eins hár og hann þarf að vera en samt ekki það hár að fólk sé ekki tilbúið að greiða hann.
Með forgangsröðun og stærri tekjustofnum mætti mögulega lækka hann.

 

Fákeppni og einokun er stórt vandamál sem þarf að koma böndum á með skilyrðum og eftirliti frá hinu opinbera

Hlutlaus

Nánari skýring: Fyrirtæki (og einstaklingar) eiga vera eins frjáls og hægt er án þess að skerða frelsi annarra.
Á jafn litlum markaði og við erum með er því miður hætt við fákeppni og einokun og því meiri þörf á eftirliti og aðhaldi. Á hinn bóginn þá veldur of mikið eftirlit og regluverk líka skaða. Það er erfitt að finna milliveginn í þessu.
Ein möguleg lausn væri að opna markaðinn meira fyrir erlenda aðila.
Það er þó alveg á hreinu að ríkið á ekki að stuðla að einokun og fákeppni, sbr. t.d. MS og ÁTVR.

 

Stjórnendur eiga að geta verið persónulega ábyrgir fyrir afbrotum stofnana / fyrirtækja / etc. sem þeir stjórna og framin eru á þeirra vakt

Ósammála

Nánari skýring: Eigendur fyrirtækja eiga að vera persónulega ábyrgir upp að vissu marki. Hafi þeir markað stefnu fyrir sitt fyrirtæki sem veldur afbrotum, þá já. Ef þeirra undirmenn brjóta af sér án þess að hægt sé að rekja það til stjórnenda, þá nei. Hér á t.d. að banna kt. flakk með öllu.
Þegar kemur að stjórnendum stofnanna ríkisins vandast málin. Hér ætti eftirlit með stofnunum að koma í veg fyrir afbrot. Vegna þess er ríkið ábyrgt en auðvelda ætti brottrekstur vegna afglapa í starfi hjá ríkinu.

 

Lögleiða á Samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Mjög sammála

Nánari skýring: Að Ísland sé ekki fyrir löngu búið að fullgilda og lögleiða samninginn er skammarlegt. Við erum eitt af aðeins þremur löndum í Evrópu sem hafa ekki gert það. Hin eru Írland og Hvíta-Rússland.
Af öðrum löndum sem hafa skrifað undir en ekki fullgilt samninginn má telja t.d. Norður-Kóreu og Líbíu. Við ættum að klára þetta strax.

 

Niðurstaða úr kosningakerfi Pírata er mér mikilvægari en skoðanakannanir meðal landsmanna. Áskil mér þó rétt til að fara eftir auknum meirihluta, 67% til að stuðla að samhengi í þingstörfum

Mjög sammála

Nánari skýring: Verði ég kjörinn þingmaður á vegum Pírata þá fylgi ég stefnu Pírata. Skoðanakannanir eru ekki áreiðanleg tól til að meta vilja landsmanna. Eða allavega ekki nógu áreiðanlegar til að fylgja þeim í blindni.
Ég álít það mikið frekar í verkahring grasrótarinnar að bregðast við slíku og ef vilji er fyrir því að móta og samþykkja stefnu í samræmi við slíka skoðanakönnun. Þar með yrði það stefna flokksins og henni fylgi ég eftir bestu getu.

 

Við þurfum að lýðræðisvæða lifeyrissjóðakerfið þannig að sjóðfélagar einir kjósi stjórnir sjóðanna

Sammála

Nánari skýring: Augljóslega ætti aðkoma sjóðfélaga að kjöri stjórnar að vera mun meiri en nú er. Það er kjánalegt að stór hluti stjórna lífeyrissjóða sé skipaður af atvinnurekendum. Það er þó kannski heldur langt gengið að sjóðfélagar einir kjósi stjórnirnar.

 

Ísland á að reka sjálfstæðari utanríkisstefnu og hiklaust greiða atkvæði gegn árásarstríðum þegar við getum

Sammála

Nánari skýring: Það ætti að vera sjálfgefin afstaða Íslands að styðja ekki árásarstríð. Ákvörðun um annað ætti alltaf fara í umræðu á Alþingi áður en ákvörðun er tekin og kjósa skal um ákvörðunina. Ef öryggissjónarmið koma í veg fyrir svo opna umræðu þá ætti slík umræða að lágmarki að fara fram á lokuðum nefndarfundi í viðeigandi nefnd.
Það má aldrei gerast aftur að Ísland endi á lista viljugra þjóða með svipuðum hætti og gerðist í aðdraganda Íraksstríðsins.

 

Það er mín sannfæring að vilji grasrótar Pírata skuli ráða þegar hann stangast á við mína eigin skoðun

Sammála

Nánari skýring: Ég hef gefið út að ef ég get engan veginn stutt ákvörðun grasrótarinnar vegna eigin sannfæringar þá muni ég, eftir atvikum, hleypa varamanni að eða amk sitja hjá.
Ég set þó þann fyrirvara að vilji grasrótarinnar sé mjög skýr. Það er ekki eðlileg krafa að stefna sem er með mjög naumt samþykki eða mjög fá atkvæði á bakvið sig bindi hendur kjörinna fulltrúa. Það eru til dæmi um samþykkta stefnu með aðeins 53% samþykki og mörg dæmi þar sem atkvæðafjöldinn nær ekki 20 í 4000 manna flokki.

 

Ísland á að stefna að aðild að ESB, ef hagstæðir samningar nást

Hlutlaus

Nánari skýring: Hér er um að ræða mjög stórt mál. Það er samþykkt stefna flokksins að þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði um hvort halda skuli áfram með aðildarviðræður við ESB.
Hér á vilji þjóðarinnar alfarið að ráða för. Mín persónulega afstaða skiptir ekki máli. Flokkurinn sem slíkur á heldur ekki að mynda sér stefnu, af eða á, fyrr en eftir að þjóðin hefur fengið tækifæri til að lýsa skoðun sinni.

 

Grunntölur tekna einstaklinga, fyrirtækja og stofnana, beinar og óbeinar yfir árið eiga að vera aðgengilegar öllum í opnu bókhaldi.

Ósammála

Nánari skýring: Þegar kemur að fyrirtækjum og stofnunum þá er ég að mestu sammála.
Varðandi einstaklinga horfir annað við.
Á aðra höndina er friðhelgi einkalífsins. Á hina er rétturinn til upplýsinga. Friðhelgin er til að vernda hina valdaminni frá hinum valdameiri. Upplýsingarétturinn auðveldar eftirlit hinna valdaminni með þeim valdameiri. Einstaklingur hlýtur að teljast valdaminni gegn fjöldanum sem er þjóðin.
Því er ég ekki sammála þessu varðandi einstaklinga.

,

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *