Spurningin um stutt kjörtímabil eða ekki fer alveg eftir því hvaða leið verður farin við samþykkt nýrrar stjórnarskrár. Það eru nokkrar leiðir færar að því marki.
Best væri ef við værum búin að móta okkur stefnu um hvaða leið að markinu við ætlum að fara áður en til kosninga kemur. Aðeins þannig verður enginn vafi hjá neinum um hvernig við viljum framkvæma þetta markmið.
Ég ætla að velta upp þremur mismunandi leiðum.
Til að setja þetta í samhengi við ályktun aðalfundar 2015 þá felst í öllum þremur leiðunum að gengið verði frá framkvæmd þjóðaratkvæðis um áframhald ESB viðræðna þannig að sú þjóðaratkvæðisgreiðsla fari fram eins fljótt og mögulegt er. Þetta verði gert óháð stjórnarskrárvinnunni en tryggt að atkvæðagreiðslan fari fram áður en þingi er slitið a.m.k. svo að næsta stjórn geti ekki eyðilagt þá vinnu.
Ég mun leggja fram breytingartillögu á eldri samþykktri stefnu flokksins um stjórnskipunarlög2 á félagsfundi næsta föstudag kl. 20 í Tortuga. (Ég gerði það og var hún samþykkt með örlítilli breytingu (höf.)).
Tilgangur þeirrar breytingartillögu er tvíþættur. Á aðra höndina endurnýja umboð flokksins fyrir þeirri stefnu en aðeins 30 félagsmenn tóku þátt í kosningu um þá hana þegar hún var lögð fram.
Á hina höndina að samræma orðalag hennar við orðalagið sem samþykkt var á aðalfundi 2015 sem og orðalagið í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. okt. 2012.
Leið 1:
(Örstutt kjörtímabil (3-9 mánuðir))
Mótuð verði stefna fyrir Pírata þess efnis að samþykkja nýja stjórnarskrá eins fljótt og mögulegt er án auka vinnu. Þ.e. að eingöngu verði byggt á áður unninni vinnu.
Þessi leið felur í sér að annað hvort verði tillögur stjórnlagaráðs lagðar fram orðréttar sem frumvarp eða að útgáfa SEN verði lögð fram að nýju (ég er hlynntur seinni möguleikanum).
Með þessari leið væri möguleiki á að láta kjósa beint um nýja stjórnarskrá samhliða þjóðaratkvæðisgreiðslu um áframhald ESB viðræðna. Hafa kosningu í þetta skiptið mjög skýra og beina; “Vilt þú að “þetta skjal” verði að nýrri stjórnarskrá?”
Sé þessi leið farin þá væri mögulega hægt að hafa kjörtímabilið enn styttra en hefur verið rætt hingað til. Það væri jafnvel mögulega hægt að klára þessa útfærslu á 3-6 mánuðum og þá verði markmiðið að ná að klára áður en leggja þarf fram fjárlög.
Stóru breyturnar sem stjórna hvort þessi leið sé möguleg eru aðalega tvær. Að flokkurinn sé búinn að koma sér alveg saman, fyrir kosningar, um að þetta sé leiðin sem eigi að fara og hversu mikið fylgi við fáum í kosningunum.
Minni en mikilvæg breyta er hvort og hversu margir af mögulegum samstarfsflokkum okkar er tilbúnir til að fara þessa leið. Hér þarf að einhverju leyti (semi)þverpólitíska sátt fyrirfram.
Leið 2
(Millistutt kjörtímabil (9-24 mánuðir))
Mótuð verði stefna fyrir Pírata þess efnis að samþykkja nýja stjórnarskrá eins fljótt og mögulegt er á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs en að teknu tilliti til þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram á tillögurnar. Byggt yrði að mestu á fyrri vinnu en lögð meiri vinna í að sníða af vankanta og hnökra sem hefur verið bent á síðan tillögurnar voru lagðar fram.
Þessi leið felur í sér nánari yfirferð yfir tillögurnar en fyrsta leiðin. Það mætti t.d. gera með aðkomu gamla stjórnlagaráðsins og nefnd sérfræðinga (reynt að velja ópólitíska sérfræðinga). Hér væri gefin góður en ekki of mikill tími til að reyna að sætta fylkingar eins mikið og hægt væri.
Með þessari leið væri möguleiki á að láta kjósa beint um nýja stjórnarskrá samhliða þjóðaratkvæðisgreiðslu um áframhald ESB viðræðna eða sveitarstjórnarkosningum 2018. Hafa kosningu í þetta skiptið mjög skýra og beina; “Vilt þú að “þetta skjal” verði að nýrri stjórnarskrá?”
Sé þessi leið farin þá þyrftum við að leggja fram a.m.k. ein fjárlög og mögulega tvö. Þessi leið gæfi Pírötum líka tækifæri á að koma af stað öðrum baráttumálum flokksins þar sem tímamörkin gæfu okkur aðeins meiri sveigjanleika.
Sömu breytur um vænleika þessa leiðar eiga við og um leið eitt en það væri ekki jafn nauðsynlegt að vera búin að ákveða nákvæma tímalínu á ferlinu eins og í leið eitt, hér myndi vera aðeins meiri sveigjanleiki á framkvæmdinni vegna aukins tíma.
Einnig gæfist meiri tími til að sannfæra aðra þingmenn um gildi nýrrar stjórnarskrár.
Leið 3:
(millilangt kjörtímabil (18-48 mánuðir))
Mótuð verði stefna fyrir Pírata þess efnis að samþykkja nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs en að teknu tilliti til þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram á tillögurnar. Byggt yrði á fyrri vinnu en lögð mun meiri vinna í að sníða af vankanta og hnökra sem hefur verið bent á síðan tillögurnar voru lagðar fram.
Í þessari leið fælist að góður hluti af ferlinu sem ríkisstjórn VG og Sf fór í væri endurtekinn. Hversu mikill hluti færi eftir samkomulagi Pírata við samstarfsflokka sína. Þó þætti mér lágmark að nýtt stjórnlagaráð yrði valið sem hefði það hlutverk að fara yfir tillögur síðasta ráðs og betrumbæta þær í samræmi við framkomna gagnrýni. Hér þætti mér líka mikilvægt að fundin yrði betri leið til að velja í stjórnlagaráð heldur var farin síðast. Best væri líklega að velja einstaklinga annað hvort af fullkomnu handahófi eða á svipaðan hátt og úrtök eru valin fyrir skoðanakannanir.
Yrði þessi leið farin þá væri ekki verið að flýta sér að neinu. Það myndi minnka líkurnar á mistökum vegna fljótfærni. Að sama skapi myndi þessi leið auka líkurnar á að málið myndi deyja aftur vegna stjórnmálamenningar þeirrar sem við erum orðin alltof vön. Ég hef hins vegar fulla trú á að sú nýja sýn sem Píratar eru að koma með að borðinu kæmi í veg fyrir að málið fengi að deyja.
Aftur eru sömu breyturnar til staðar varðandi vænleika þessarar leiðar. Helsti munurinn er að við getum barist fyrir þessari leið (eða svipuðu) eiginlega alveg sama hvað kemur upp úr kjörkössunum.
Mín niðurstaða
Sjálfur er ég beggja blands um hvort leið 2 eða 3 sé best. Ég held það verði erfitt að sannfæra þjóðina um frekari breytingar á stjórnarskránni stuttu eftir að ný tekur gildi. Því tel ég mun vænlegra, til lengri tíma litið, að gallarnir sem eru á tillögum stjórnlagaráðs verði lagaðir áður en ný stjórnarskrá er samþykkt. Þess vegna er ég hlynntur, og mun tala fyrir, að annað hvort leið 2 eða 3 verði farin.
Það sagt þá mun ég standa að öllu leyti við þá skoðun mína að ég er tilbúinn að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs orðréttar, með öllum göllum þess, ef engin önnur leið er fær til að fá inn nýtt og bætt breytingarákvæði, málskotsrétt þjóðar, heimild þjóðar til að leggja mál fyrir Alþingi, auðlindaákvæði og náttúruverndarákvæði (til að nefna nokkur atriði sem eru betri en í núgildandi stjórnarskrá).
Með bættu breytingarákvæði þá er hægt að laga gallana á nýrri stjórnarskrá eftir samþykkt hennar. Lagfæringar sem ættu ekki að taka 70 ár í viðbót.
Þessi pistill birtist fyrst hér á Fuglabjarginu, spjallsvæði Pírata.
Til að árétta þá er nauðsynlegt að taka fram að pistillinn var skrifaður þegar næstu kosningar voru ráðgerðar vorið 2017.