Um hækkun almannatrygginga skv. fjárlagafrumvarpi 2018


Skv. fjárlagafrumvarpi fyrir 2018 er gert ráð fyrir að almenn hækkun greiðslna almannatrygginga verði 4,7%. Þá er gert ráð fyrir sérstakri hækkun heimilisuppbótar til viðbótar til að þeir lífeyrisþegar sem búa einir nái 300 þús. kr. framfærslu á mánuði (fyrir skatta að venju), í samræmi við loforð síðustu ríksstjórnar um að lágmarksframfærsla lífeyrisþega væri jöfn lágmarkslaunum á markaði.

Góðu fréttirnar eru að það virðist ekki vera planið að ná þessari lágmarksframfærslu með hækkun sérstakrar framfærsluuppbótar. Þ.e.a.s. að krónu a móti krónu skerðingin virðist ekki aukast hlutfallslega eins og var gert um síðustu áramót. Slæmu fréttirnar eru að enn breikkar bilið milli lífeyrisþega sem búa einir og þeirra sem búa með öðrum. Þ.e.a.s. að óskertar greiðslur til þeirra sem búa með öðrum munu aðeins hækka um tæpar 11 þús. kr. en um 20 þús. hjá þeim sem búa einir.

Það verður ekki annað sagt en að þetta er bölvað hálfkák, bæði hjá núverandi ríkisstjórn sem og þeirri síðustu. Ef stjórnvöld hefðu raunverulega jafnað greiðslur almannatrygginga við lágmarkslaun þá hefðu þeir lífeyrisþegar sem búa með öðrum átt að fara í 280 þús. kr. um síðustu áramót og í 300 þús. kr. um þau næstu.

Ég sé ekki að stéttarfélög myndu samþykkja kjarasamninga sem fælu í sér að lágmarkslaun væru skilyrt við búsetustöðu launþegans. Ég hef því aldrei skilið af hverju lífeyrisþegar eiga að sætta sig við það.

(Greinargerð um örorku og málefni fatlaðs fólks hefst á bls. 365 í pdf útgáfu frumvarpsins og um málefni aldraðra á bls. 375).