Í seinni hluta þessarar fréttaskýringar er áhugaverð greining á fylgi flokka eftir aldri kjósenda. Hvað viðkemur Pírötum kemur í rauninni lítið nýtt í ljós.
Í þessari greiningu kristallast hins vegar þrjár staðreyndir sem við píratar verðum að hafa í huga í aðdraganda kosninga og við skipulag á kosningabaráttu:
1. Okkar langmesta fylgi er hjá ungu fólki. Gallinn er að langminnsta kjörsóknin er hjá fólki undir þrítugu.
Við þurfum því að vinna að því að fá ungt fólk á kjörstað með öllum þeim ráðum sem okkur stendur til boða (innan skynsemis- og siðferðismarka).
2. Okkar langminnsta fylgi er hjá fólki 68 ára og eldra. Þar á eftir kemur aldurshópurinn 50-67 ára. Þetta eru þeir aldurshópar sem eru hvað duglegastir við að mæta á kjörstað.
Við þurfum því að vinna að því að fá eldra fólk til liðs við okkur með öllum þeim ráðum sem okkur stendur til boða (innan skynsemis- og siðferðismarka).
3. Við þurfum að finna rétta jafnvægið milli þess að eyða orku okkar og tíma í að fá unga fólkið til að mæta á kjörstað annars vegar og fá eldra fólkið til að styðja okkur hins vegar. Mín skoðun er að við eigum að setja hlutfallslega meiri orku í að fá unga fólkið á kjörstað en hinni hliðinni má alls ekki sleppa.
Af hverju unga fólkið?
Ástæðan fyrir þessari skoðun minni er ekki að ég vilji ekki fylgið frá eldri kynslóðinni. Þvert á móti vil ég sem mest af því. Fylgið verður samt að vera á réttum forsendum.
Ég vil hins vegar að við forgangsröðum frekar að koma yngra fólkinu á kjörstað vegna þess að á meðan þau styðja Pírata eru þau að hlusta á pírata. Við eigum að nota þá undiröldu sem við höfum hjá yngri kynslóðinni til að sannfæra þau um mikilvægi þess að kjósa.
Alveg óháð því hvort þau styðja Pírata eða aðra flokka.
Það vill nefnilega svo til að hluti af okkar grunnstefnu er aukinn sjálfsákvörðunarréttur, “…að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni,…”.
Við eigum að gera okkar besta til að auka lýðræði í landinu, óbeint jafnt og beint, og ein besta leiðin til þess er að sannfæra sem flesta um að kjósa. Jafnvel þó það sé til að kjósa aðra flokka en Pírata.
Fuglabjargið
Að lokum er hér tengill á þráð á Fuglabjarginu, spjallsvæði Pírata, um hvernig eigi að fá unga fólkið á kjörstað.